Fjármálaeftirlitið og Arion banki hafa náð sátt í máli vegna meðferðar bankans á hagsmunaárekstrum í tengslum við aðkomu bankans að fjármögnun kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Sáttin felst í því að Arion banki greiðir 21 milljón króna í sekt vegna málsins. Bankinn greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Fjármálaeftirlitið gagnrýndi í apríl í fyrra fjárfestingaferli Frjálsa lífeyrissjóðsins í niðurstöðum athugunar sem birt var á vef FME. Þar kom fram að ekki hafi verið tekið nægt tillit til hagsmunatengsla milli Arion banka og lífeyrissjóðsins þegar ákvörðun var tekin um að fjárfesta í United Silicon.

Tilkynningu Arion banka vegna málsins má sjá hér að neðan:

Fjármálaeftirlitið tilkynnti Arion banka í apríl 2018 að það hefði til skoðunar meðferð bankans á hagsmunaárekstrum í tengslum við aðkomu bankans að fjármögnun kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Þeirri skoðun er nú lokið með sátt þar sem Arion banki viðurkennir að láðst hafi að skrá með skipulegum og formlegum hætti innan bankans greiningu hagsmunaárekstra í tengslum við kaup lífeyrissjóða á skuldabréfum á árinu 2015 og þátttöku þeirra í hlutafjárhækkunum Sameinaðs Sílikons hf. á árunum 2016 og 2017. Heimilt er að ljúka málum sem þessum með sátt, enda er ekki um að ræða meiri háttar brot og fellst Arion banki á að greiða sekt að fjárhæð 21 milljón króna.

Arion banki gegndi fjölþættu hlutverki við öflun fjármagns til uppbyggingar verksmiðjunnar sem óhjákvæmilega fól í sér hagsmunaárekstra. Bankinn upplýsti viðskiptavini sína um þessi tengsl og gætti þess að til staðar væru viðeigandi mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar myndu skaða hagsmuni viðskiptavina. Hvorki voru gerðar athugasemdir við greiningu hagsmunaárekstra né mótvægisaðgerðir bankans en líkt og segir í sáttinni, láðist að skjala greiningu á hagsmunaárekstrum og hefur bankinn þegar brugðist við þessari yfirsjón og bætt innri skráningu hagsmunaárekstra.