Arion banki hefur ekki gengið á eigendur 1998 ehf. vegna greiðslu skuldar félagsins þrátt fyrir að bankinn hafi selt rúmlega þriðjung í Högum, einu eign 1998 ehf., nýverið. Eigendurnir, Gaumur, ISP og Bague S.A., eru í svokallaðri pro rata ábyrgð fyrir lánum 1998, sem þýðir að þau gangast í ábyrgð fyrir endurgreiðslu þess dugi önnur veð ekki til.

Arion banki bókfærir lánið til 1998 ehf. á um 55 milljarða króna. Það var þó fært yfir í nýja bankann á litlu virði frá skilanefnd Kaupþings. Miðað við söluverðið á 34% hlut í Högum, einu eign 1998, í síðustu viku er markaðsvirði allra hlutabréfa Haga um 12,5 milljarðar króna. Því er ljóst að salan á Högum mun ekki duga fyrir endurgreiðslu lánsins. Afskriftir þrotabús Kaupþings vegna lánsins verða því líkast til um 40 milljarðar króna.

Allar eignir Gaums til kröfuhafa

Jón Ásgeir Jóhannesson, einn eigenda Gaums, segir að ekki hafi verið gengið á fyrrum eigendur 1998 ehf. vegna ábyrgðarinnar. Gaumur hafi enda gert kyrrstöðusamning við Arion síðastliðið haust og væri að greiða af öllum lánum sínum. Hann segir að allar eignir Gaums muni á endanum renna til kröfuhafa.

Áður en slíkt uppgjör geti átt sér stað verði að liggja fyrir hver raunveruleg skuldastaða 1998 og Gaums sé og klára sölu á öllu hlutafé Haga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaði morgundagsins er:

  • PwC sætir ekki lögreglurannsókn.
  • Fréttaskýring: Eðli lífeyriskerfisins er að breytast.
  • Blaðamannafundurinn á Bessastöðum í heild sinni.
  • MP banki með hluthafafund á föstudaginn.
  • Ódýrasta kísilver heims rís í Helguvík.
  • Annar hluti úttektar Viðskiptablaðsins á stöðu sjávarútvegsins.
  • Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra í Svíþjóð, segir útrásina enn í gangi en þó í annarri mynd.
  • Skyrið flutt aftur til Noregs.
  • Fréttaskýring: Hrávörur hækka vegna ástandsins í Líbýu.
  • Dægurmenning: Stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar senn að ljúka.
  • Fólk: Magnús Ármann var skákmeistari.
  • Hagur, blað Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH), fylgir Viðskiptablaðinu.