Greiningardeild Arion banka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4 prósentustig í apríl. Stærsti áhrifaþátturinn verður hækkað verð á flugi, sem áætlað er að verði um tólf prósent og valdi 0,17 prósentustiga hækkun vísitölu neysluverðs, sem þó hefur lítið með fall Wow að gera.

„Hækkunina má fyrst og fremst rekja til yfirvofandi páskafrís, ekki gjaldþrots Wow air, en við teljum að áhrifin af minni samkeppni á flugmarkaði séu ekki komin fram,“ segir í greiningunni. Aðrir þættir sem valda hækkun eru meðal annars eldsneyti, húsaleiga og tómstundir.

Í greiningunni segir að Hagstofan mæli verð á flugfargjöldum tveimur vikum, einum mánuði og tveimur mánuðum fyrir mælingarviku. Fargjöldin þessa vikuna koma því ekki inn í útreikningana fyrr en eftir einn til tvo mánuði.

„Mögulega litar gjaldþrot Wow air mælinguna að einhverju leiti þar sem mælingin fyrir tveimur vikum var framkvæmd í vikunni sem félagið fór í þrot. Stóra spurningin er því, hvernig ætlar Hagstofan að meðhöndla verðmælingar þar sem Wow air var með lægsta verð flugfargjalda?“ er spurt en að mati bankans mun það að fjarlægja Wow air úr mælingunni auka hættuna á að hækkunin verði meiri en ella.