Fjárfestinbankasvið Arion banka mun á næstu dögum kynna almennt útboð á hlutabréfum í Högum. Þar mun Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, bjóða almenningi og fagfjárfestum að kaupa 20-30% hlut í Högum. Óskað verður eftir áskriftum á verðbilinu 11 til 13,5 krónur á hlut. Áskriftartímabil útboðsins mun standa yfir dagana 5. til 8. desember næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka. Kemur fram að heildarsöluandvirði útboðsins geti því numið á bilinu 2,7 til 4,9 milljörðum króna. „Útboðið nemur 20% af útgefnum hlutum í Högum hf. þar af eru 12,5% ætluð tilboðsbók og 7,5% ætluð netáskrift. Seljandi kann þó að gera breytingar á þeirri skiptingu ef eftirspurn fjárfesta gefur tilefni til þess og mun þá hafa markmið útboðsins að leiðarljósi. Seljandi áskilur sér jafnframt rétt til að stækka útboðið í allt að 30% af útgefnu hlutafé.

Allir hlutir í útboðinu verða seldir á sama endanlega útboðsgengi sem verður á verðbilinu 11-13,5 krónur á hlut. Fjárfestir getur skilyrt áskrift sína við að endanlegt útboðsgengi fari ekki yfir ákveðið hámarksverð á hlut. Ef ekkert hámarksverð er tilgreint hefur fjárfestirinn samþykkt endanlegt útboðsgengi,“ segir í tilkynningunni.

Þegar hefur 44% hlutur verið seldur til lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta. Eignabjarg mun halda eftir um 20-30% hlut þar til á næsta ári, fram yfir fyrirhugaða skráningu Haga í Kauphöll. „Markmiðið er að útboðið geri Högum kleift að uppfylla skilyrði NASDAQ OMX Iceland um dreifingu hlutafjár og marki grunninn að dreifðu eignarhaldi á Högum og er bæði horft til þess að almenningur og fagfjárfestar eignist hlut í félaginu, en jafnframt er markmið seljandans að fá ásættanlegt verð fyrir eign sína.“