Slitabú Kaupþings leitar nú að erlendum banka til þess að skrá Arion banka í kauphöll erlendis frá - samhliða því að vera skráður á markað hér á landi. Samkvæmt heimildum Reuters fréttastofunnar er talið líklegast að skráningin verði í Stokkhólmi.

Samkvæmt frétt Reuters er Arion banki metinn á um 1,5 milljarð evra eða því sem jafngildir tæplega 179 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Fyrr á árinu fékk slitabú Kaupþings, Citi og Morgan Stanley viðskiptabankana til þess að vinna undirbúningsvinnu fyrir skráninguna.

Slitabú Kaupþings og Arion banki hafa enn ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla og ekki hefur náðst í Citi og Morgan Stanley. Eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá þá reynir slitabú Kaupþings nú að reyna að losa sig við verslanirnar Coast, Oasis og Warehouse.