Miklar breytingar urðu á landslagi verðbréfamarkaðarins á nýliðnu ári sé það borið saman við árið 2013. Heildarvelta með skuldabréf dróst saman um 16% árið 2014 á meðan heildarvelta með hlutabréf jókst um 10% á sama tíma. Sé litið til hlutdeildar fjármálafyrirtækja í viðskiptum á verðbréfamarkaði á árinu 2014 má sjá þó nokkrar breytingar á hlutabréfamarkaði og litlar á markaði fyrir skuldabréf.

Mest dregur úr hlutdeild MP banka

Það fjármálafyrirtæki sem jók mest við hlutdeild sína á hlutabréfamarkaði á milli ára er Arion banki. Hann er með 27% hlutdeild af heildarveltu markaðarins og jók þá hlutdeild um 61% milli ára og jók heildarveltu sína um 77% á sama tíma. Íslandsbanki vermdi toppsætið árið 2013 með svipaða hlutdeild og Arion hefur nú en hefur dregið úr henni um 22% milli ára og minnkaði veltu um 14%. Hann er í öðru sæti með 22% hlutdeild á hlutabréfamarkaði og á eftir honum kemur Landsbankinn með 20% hlutdeild. Af fimm umsvifamestu fyrirtækjum á verðbréfamarkaði dregur MP banki mest úr sinni hlutdeild eða um 30% milli ára og dró úr veltu bankans á sama tíma um 23%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .