Árni Páll Árnason, fyrrv. efnahas- og viðskiptaráðherra, þykir hafa styrkt stöðu sína nokkuð þrátt fyrir að hafa verið vikið úr ríkisstjórn og er jafnvel haft á orði innan Samfylkingarinnar að honum hafi verið greiði gerður.

Einn heimildarmanna Viðskiptablaðsins segir að honum hafi verið hent af sökkvandi skipi en þurfi þó sjálfur að læra að synda, og á þá við að hann þurfi sjálfur að finna sér farveg fyrir framtíð sína í pólitík.

Árni Páll laut í lægra haldi fyrir Degi B. Eggertssyni í varaformannskosningu í Samfylkingunni árið 2009. Síðan þá hefur Dagur þó misst mikinn stuðning innan Samfylkingarinnar og bakland hans minnkað skv. heimildum Viðskiptablaðsins. Hann hefur lítið haft sig í frammi eftir mikið fylgistap Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningunum árið 2010. Það sem hann hefur þó umfram Árna Pál er að hann kann pólitíkina sjálfa miklu betur og gæti því átt auðvelt með að stíga aftur fram í sviðsljósið og gera sig gildandi fyrir komandi formannskosningu.

Nánar er fjallað um breytingarnar á ríkisstjórnina og pólitíkina í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan