Félagið Tækifæri ehf. er komið með eitt prósent hlut í Sýn og er nú meðal 20 stærstu hluthafa fjarskiptafélagsins, samkvæmt uppfærðum hluthafalista. Tækifæri á um 2,6 milljónir hluti í Sýn sem eru um 150 milljónir króna að markaðsvirði í dag.

Tækifæri var stofnað í lok mars síðastliðnum. Félagið er í jafnri eigu Arnars Más Jóhannessonar og Trausta Ágústssonar, samkvæmt fyrirtækjaskrá.

Arnar Már starfar sem endurskoðandi hjá Rýni endurskoðun. Hann var áður fjármálastjóri fjárfestingafélagsins Atorku á árunum 2007-2009. Trausti er stjórnarformaður og hluthafi vátryggingamiðlunarinnar Tryggingar og ráðgjöf, sem hefur m.a. séð um sölu á tryggingum frá Novis hér á landi.