Arnar Már Arnþórsson hefur hafið störf sem markaðs- og sölustjóri Bláa Lónsins hf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bláa Lóninu en Arnar Már starfaði hjá Icelandair Group í 10 ár.

„Ég þekki vel til Bláa Lónsins í gegnum störf mín hjá Icelandair og það er í senn afar spennandi og mikil áskorun að ganga til liðs við fyrirtækið og það öfluga teymi sem hefur stýrt uppbyggingu þess,“ segir Arnar Már í tilkynningunni.

„Blue Lagoon Iceland er í dag eitt þekktasta vörumerki Íslands og mun það án efa eflast enn frekar á næstu árum í takt við vöxt og þróun fyrirtækisins.“

Á tímabilinu 2009 til 2012 starfaði Arnar sem markaðsstjóri Icelandair í Norður Ameríku og sem sölustjóri sama svæðis frá 2008 til 2009. Hann starfaði sem umdæmisstjóri Icelandair í Hollandi frá 2006 – 2008 og var sölu- og markaðsstjóri Hertz frá 2004 til 2006. Þá starfaði hann sem verkefnastjóri á sölu-og markaðssviði Icelandair frá 2002 til 2004.

Arnar lauk BS prófi í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands vorið 2002. Hann er giftur Helenu Bjarnadóttur, viðskiptafræðingi, og er þriggja barna faðir.