Árni Pétur Jónsson hefur látið af störfum sem forstjóri Skeljungs að eigin ósk, að því er kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Samhliða lætur hann einnig af störfum sem framkvæmdastjóri Orkunnar, nýs dótturfélags Skeljungs.

Árni Pétur hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að honum barst nýverið tölvupóstur frá fyrrverandi samstarfsmanni sem segir hann hafa farið yfir mörk sín. Þau unnu saman fyrir um 17 árum í öðru fyrirtæki og Árni var á þeim tíma yfirmaður hennar.

„Hún hefur tjáð mér að ekki sé verið að saka mig um ofbeldi, áreiti, brot gegn lögum eða neitt þess háttar heldur hafi verið um að ræða valdaójafnvægi og aldursmun. Ég hef beðið hana afsökunar og sagt að ég harmi mjög að heyra um hennar vanlíðan,“ segir Árni Pétur.

„Þrátt fyrir að ég hafi á engan hátt gerst brotlegur við lög þá átta ég mig á því að viðmið og viðhorf hafi breyst í samfélaginu og er það vel. Met ég stöðuna þannig að mál þetta kunni að valda fyrirtækinu og samstarfsfólki óþægindum. Ég hef því óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri hjá Skeljungi hf.,“ bætir Árni við.

Ólafur tekur við sem forstjóri

Ólafur Þór Jóhannesson, sem gengt hefur starfi aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra fjármálasviðs hefur verið ráðinn sem forstjóri Skeljungs. Hann mun einnig gegna starfi framkvæmdastjóra Orkunnar ehf. fyrst um sinn.

Ólafur hóf störf hjá Skeljungi í lok árs 2019. Þar áður var hann fjármálastjóri og staðgengill forstjóra hjá Basko á árunum 2012-2018. Þá var Ólafur framkvæmdastjóri Miðengis ehf., eignarhaldsfélags í eigu Íslandsbanka, og þar áður gegndi hann stöðu fjármálastjóra Teymis.

Auk þess hefur Ólafur sinnt kennslu í Háskólanum í Reykjavík við viðskiptadeild háskólans og starfað fyrir prófnefnd löggiltra endurskoðenda. Ólafur er með Cand.oecon próf í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands og er löggiltur endurskoðandi.

Yfirlýsing Árna í heild sinni:

Nýverið barst mér tölvupóstur frá fyrrverandi samstarfsmanni mínum en við unnum saman fyrir u.þ.b. 17 árum og ég var þá yfirmaður hennar í öðru fyrirtæki. Þar greinir hún frá því að í dag upplifi hún samskipti okkar á þessum tíma með þeim hætti að ég hafi gengið yfir ákveðin mörk. Hún hefur tjáð mér að ekki sé verið að saka mig um ofbeldi, áreiti, brot gegn lögum eða neitt þess háttar heldur hafi verið um að ræða valdaójafnvægi og aldursmun.

Ég hef beðið hana afsökunar og sagt að ég harmi mjög að heyra um hennar vanlíðan.

Þrátt fyrir að ég hafi á engan hátt gerst brotlegur við lög þá átta ég mig á því að viðmið og viðhorf hafi breyst í samfélaginu og er það vel. Met ég stöðuna þannig að mál þetta kunni að valda fyrirtækinu og samstarfsfólki óþægindum. Ég hef því óskað eftir að láta af störfum sem forstjóri hjá Skeljungi hf.

Fréttin var uppfærð eftir að Árni Pétur sendi frá sér yfirlýsingu.