Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra sagði á Alþingi í dag að ef Sjálfstæðisflokkurinn væri í forystu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu í Evrópusambandið þyrfti hann að hafa mótað sér nýja stefnu og aðra stefnu en hann hefði í dag. Það hefði hann ekki gert.

Ummælin féllu í svari við fyrirspurn Valgerðar Sverrisdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins.

Valgerður gerði í fyrirspurn sinni orð Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins að umtalsefni. Þorgerður sagði á fundi með sjálfstæðismönnum í Kópavogi í gærkvöld að hún treysti landsmönnum til að kjósa um inngöngu í ESB - í þjóðaratkvæðagreiðslu - og nefndi hún næsta kjörtímabil í því sambandi.

Árni sagði að það væri ekkert nýtt að Evrópusambandið væri rætt innan Sjálfstæðisflokksins.

„Það eru hins vegar ekki nein merki - sem ég veit um innan flokksins - að það séu að verða einhverjar breytingar frá stefnu flokksins. Að minnsta kosti ekki eins og staðan er í dag. Það getur auðvitað gerst með meiri umræðu [...]," sagði hann.

„Spurningin um það hvort það verði atkvæðagreiðsla hér á landi um aðild að Evrópusambandinu: Það er algjörlega óljóst. En ég held að það sé algjörlega ljóst að það verður engin slík atkvæðagreiðsla á þessu kjörtímabili. Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri í forystu fyrir slíkri atkvæðagreiðslu þyrfti hann að hafa mótað sér nýja stefnu og aðra stefnu heldur en hann hefur haft í dag. Það þyrfti þá að liggja ljóst fyrir að flokkurinn ætlaði að leggja til að þjóðin gengi í Evrópusambandið. En þá stefnu hefur flokkurinn ekki markað sér og ég sé ekki fyrir mér að það gerist alveg á næstunni.“