„Ég ætla mér ekki að taka við af Friðriki Sophussyni sem forstjóri Landsvirkjunar,“ segir Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra þegar hann er spurður hvort til greina komi að hann verði næsti forstjóri Landsvirkjunar.

Friðrik upplýsti í helgarviðtali Viðskiptablaðsins að hann gerði ráð fyrir að hætta fljótlega eftir 65 ára afmæli sitt, sem verður í október næstkomandi.

Árni M. Mathiesen hefur verið nefndur sem mögulegur eftirmaður Friðriks.

„Það hvorki er né hefur verið inni í myndinni hjá mér,“ sagði Árni í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Friðrik sagði í helgarblaði Viðskiptablaðsins að þótt það væri heimild í starfsreglum fyrirtækisins að bæta tveimur árum við þá hefði hann gert samning við fjölskyldu sína um að flytja með henni til Noregs þar sem eiginkona hans, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, tekur innan tíðar við sendiherrastöðu.