Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marel og forstjóri Eyris Invest segir að kostnaðurinn við að hafa þá örmynt sem krónan er sé alltof hár til langframa og telur að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Þetta kemur fram í viðtali við Árna Odd í tímaritinu Áramót, sem Viðskiptablaðið gefur út.

„Evrópusambandsaðild felur í sér þrennt, í fyrsta lagi verðum við fullgildur meðlimur í samfélagi þjóða og höfum áhrif á það sem er að gerast í Evrópu. Í öðru lagi er það evran og að lokum er það bakstuðningur evrópska Seðlabankans við bankakerfið. Þannig að kostnaðurinn við að halda í krónuna verður alltaf of mikill til samanburðar við ávinninginn," segir hann og ennfremur: „Það sem er líka að gerast í heiminum er að það virðist allt benda til að það verði 5-10 myntir í heiminum eftir 5-10 ár. Það verður alveg örugglega ekki íslenska krónan, og ekki sænska eða danska krónan. Væntanlega ekki pundið heldur. Þetta verða líklegast evra, dollar, yen, kínverska yuanið og svo framvegis."

Árni Oddur segir að þá sem segja Evrópusambandið ekki á dagskrá vegna þess að við fáum ekki inngöngu fyrr en eftir 4 - 5 fara með rangt mál. „Það er rétt að við fáum ekki evruna fyrr en eftir að við náum Maastricht-skilyrðum sem er að mínu viti 5-7 ára ferli. Það sem er meira um vert er að trúverðugleikinn eykst um leið og sótt er um. Og eftir því sem hann eykst fara fjármálamarkaðir að stilla af gengi krónu og evru. Þannig að í raun fáum við áhrif evru strax inn, með verðlagningu á styrkleikum og veikleikum hagkerfisins, sem er best."