Fjármálakerfi Íslands og í raun heimsins alls var byggt upp á þeirri hugmynd að eitthvað sé til sem heiti áhættulausar eignir. Enginn trúir því lengur að ríkisskuldabréf séu áhættulaus og er kerfið því í raun byggt upp á guðspekilegum grunni, að sögn Árna Páls Árnasonar, Alþingismanns, en Árni var einn frummælanda á fundi Samtaka atvinnulífsins um gjaldeyrishöft í dag.

Árni segir að efnahagslegt og stjórnmálalegt sjálfstæði sé ekki sjálfsagt fyrir litla þjóð eins og okkur. Ísland verði að vera opið hagkerfi en einnig varið hagkerfi. Íslendingar verði að eiga í frjálsum viðskiptum við umheiminn, en ekki megi koma fyrir aftur að íslensk fyrirtæki og einstaklingar þurfi að búa við sveiflukenndan gjaldmiðil, sem spákaupsmenn geti spilað á.

Tvær leiðir til að losna við aflandskrónur

Árni segir að tvær leiðir séu til út úr vandanum sem felst í aflandskrónustabbanum svokallaða. Annaðhvort sé hægt að ganga í ESB og taka upp evru, en með því verði aflandskrónurnar að evrum, eins og fyrir galdra, og geti þar með farið út úr landinu. Hin leiðin sé sú að lýsa því yfir, með trúverðugum hætti, að markmiðið sé að viðhalda gjaldeyrishöftum um langa tíð. Með því móti einu verði hægt að sannfæra aflandskrónueigendur um að hagsmunum þeirra sé best borgið með því að yfirgefa landið. Árni gantaðist með að til að ná þessum trúverðugleika verði að setja Steingrím J. Sigfússon aftur í stól fjármálaráðherra og Styrmi Gunnarsson í stól efnahagsráðherra.

Hann sagði að hvort sem markmiðið sé innganga í ESB eða að halda í krónuna sé mikilvægasta verkefni komandi mánaða og missera sé að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og greiða niður skuldir. Fyrr en það er gert verði aldrei hægt að losna við höftin. Hins vegar sé erfitt að ná almennri samstöðu um ábyrga stefnu í ríkisfjármálum nema að stjórnarandstaðan fái einhvern aðgang að vinnu við mörkun efnahags- og fjárlagastefnu.

Hann vill því að allir flokkar á þingi og aðilar vinnumarkaðarins skuldbindi sig við að standa við markmið um jöfnuð í ríkisfjármálum og að Maastricht skilyrðunum verði náð sem fyrst. Þessi fyrirheit séu jaft forsenda sjálfstæðrar krónu og upptöku evru.

Fram að kosningum vill hann að flokkar, sem ekki vilja aðild að ESB, geti fram að kosningum þróað trúverðugan valkost um peningamálastefnu. Styrkja verði áætlun um afnám hafta og afnám ríkisábyrgðar á innstæðum. Hann segir fáránlegt að innstæður stofnanafjárfesta séu með ríkisábyrgð.