Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra telur að fyrri yfirlýsingar eða samningar sem gerðir voru við Breta og Hollendinga vegna Icesave bindi ekki hendur stjórnvalda í málinu. Á blaðamannafundi í dag, þar sem svarbréf stjórnvalda til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, var kynnt, sagði Árni Páll að öll samkomulög hafi verið gerði með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þau séu því ekki bindandi fyrir Ísland á nokkurn hátt.

Líkt og greint hefur verið frá krefjast stjórnvöld í svarbréfinu að ESA vísi málinu frá. Árni Páll sagði að allt frá árinu 2008 hafi stjórnvöld tjáð Bretum og Hollendingum skýran samningsvilja. Hinsvegar hafi stjórnvöld ekki alltaf í góðri samningastöðu og voru í þeirri aðstöðu að þurfa að komast undan harkalegum þrýsingi og kröfum sem ekki byggðu á sanngirni.

Hann sagði að blessunarlega sé málið ekki litað sömu litum og áður, en deilurnar vegna Icesave komu meðal annars í veg fyrir að efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda gengi samkvæmt áætlun. Nú er meiri skilningur á eðli málsins, sagði Árni Páll.

Árni Páll sagði á fundinum að nú sé það ESA að ákveða hvort málið fari fyrir dómstóla eða því verði vísað frá, líkt og íslensk stjórnvöld fara fram á. Þá er mögulegt að stofnunin krefji íslensk stjórnvöld um frekari svör.