„Því hærri laun því betra,“ sagði Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra á aðalfundi Samtaka verslunar- og þjónustu í dag. Hann sagði að launin þurfi þó að eiga sér rekstrargrundvöll og átti við launaþróun almennt í landinu.

„Um þetta snýst umræðan um laun bankastjóra.“ Árni Páll sagði erfitt að réttlæta hækkun launa þeirra þegar innstæðutryggingar eru í gildi, 40% útlána eru í vanskilum og engir kjarasamningar séu í gildi við almenna starfsmenn.

Umfjöllunarefni fundar SVÞ í dag var „Atvinnulífið og krónan“. Árni Páll spurði í ávarpi sínu hvort þjóðin vilji krónu sem verði felld til að jafna hagsveiflu eða annan gjaldmiðillinn með stöðugt gengi. Hann tók fram að með því síðarnefnda ætti hann ekki endilega við evru. Hann sagði ef svarið er það fyrrnefnda þá muni krónan ríkja hér áfram í höftum.

Árni Páll sagði að samráðsferli sé hafið þar sem reynt er að sameina sjónarmið um hvert verði stefnt í gengismálum.