Þýska blaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung hefur í dag eftir Arnóri Sighvatssyni, aðalhagfræðingi Seðlabankans, að efnahagsumhverfið í heimunm sé „mjög hættulegt “ fyrir Ísland og standi frammi fyrir miklum vanda við að gera gjaldmiðilinn stöðugan.

Arnór segir við þýska blaðið, í þýðingu Reuters, að krónan valdi óstöðugleika í íslenskum efnahag, og að aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru myndu færa landinu meiri stöðugleika.

„Við erum að fara inn í mjög hættulegt efnahagsumhverfi. Aðalvandi okkar felst í því að koma stöðugleika á gjaldmiðilinn, og til þess þurfum við að skapa traust á íslensku krónunni,“ segir Arnór við blaðið.

„Ef traust tapaðist algjörlega værum við föst í eyðileggjandi vítahring, sem myndi valda frekara falli krónunnar og valda enn meiri verðbólgu,“ segir hann.

Arnór segir við Allgemeine Zeitung að ef íslensku bankarnir ættu í vandræðum með lausafé í erlendri mynt væri staðan mun verri en hún er. „Það veldur gríðarlegum vandamálum að hafa fjármálageira sem er svo stór í samanburði við stærð efnahagslífsins. Vegna þessa hefur mat á áhættu fyrir landið og bankana vaxið gífurlega," bætir hann við.

Blaðið biður Arnór um að spá fyrir um gengi krónunnar eftir ár og Arnór svarar því til að þjóðarbúskapurinn hafi náð sér snögglega eftir svipaðan vanda árið 2002. „Það gæti gerst aftur. Efnahagslífið hér er sveigjanlegt og getur lagað sig fljótt að aðstæðum.“

______________________________________

Við fyrri útgáfu þessarar fréttar var sagt að Arnór hefði sagt að Ísland væri sérstaklega hættulegt efnahagsumhverfi. Þannig kemur það fram í þýðingu Reuters. Eftir ábendingu frá Arnóri kemur í ljós að hann hafi sagt að fyrir Ísland væru hættur fólgnar í núverandi efnahagsumhverfi í heiminum.