„2020? Nei það verða engin höft,“ sagði Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, þegar hann var spurður af Örnu Schram, fundarstjóra á fundi FVH, hvort hér verði gjaldeyrishöft árið 2020. Félag viðskipta- og hagfræðinga stóð fyrir fundi í hádeginu í dag þar sem gjaldeyrishöftin voru til umfjöllunar.

Í erindi sínu sagði Arnór að honum þyki umræðan um höftin oft einkennast af öfgum um að engar lausnir séu tækar. Hann sagði það vera sitt mat að ekki sé hægt að afnema höftin á eins skömmum tíma og margir telja að hægt sé, en það muni ekki heldur taka áratugi.  Hann sagði spurninguna snúast um tíma og að áhættan við afnám sé ásættanleg. Þar þurfi að finna milliveg.

Arnór sagði viðfangsefnið það að gera eignir stöðugar, og miðla þeim til aðila sem hafa lengri sjóndeildarhring. Einnig sé það mikilvægt að byggja hér upp traust. Ekki liggi fyrir hversu stór hluti aflandskróna, um 400 milljarðar, séu óstöðugar og vilji úr landi. Til þess að komast að því séu gjaldeyrisútboð Seðlabankans mikilvæg, sem gefi mynd af því. Á meðan ekki liggi fyrir hversu stór hluti er óstöðugur sé ekki hægt að tímasetja höftin.

Hann sagði suma tala þannig að til standi að losa um allar aflandskrónur með útboðsleiðum. Það standi hins vegar ekki til. Með útboðum sé reynt að færa aflandsgengið nær álandsgengi krónunnar. Því næst verði hugað að skuldabréfaskiptum, þar sem ríkið býðst til þess að breyta stuttum skuldabréfum í erlendan gjaldeyri. Næsta skref yrði útgönguálag, í því skyni að tempra útflæði fjármagns. Þessar aðgerðir séu ekki tímabærar í dag vegna munar á aflandsgengi og skráðu gengi krónunnar, en sá tími mun koma að hægt verður að taka næstu skref.

Um gjaldeyrisflæðið vakti Arnór einnig máls á því hverjir það verða sem kaupa íslensku bankana, það er hvort það verði innlendir aðilar sem greiði með krónum eða að þeir verði seldir erlendum aðilum „með þann sérkennilega smekk að vilja eiga íslenskan banka“. Arnór uppskar hlátur meðal fundargesta fyrir ummælin.