Ásgeir Daníelsson, forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar á hagfræðisviði Seðlabankans, sagði á málstofu um peningastefnu Seðlabankans í aðdraganda hrunsins að áróðursherferð sem farið var í á árinu 2006 hafi haft lítið að segja um styrkingu krónunnar í kjölfarið.

Ráðamenn fóru út í heim á árinu 2006 eftir að matsfyrirtækið Fitch Ratings gaf út skýrslu um veika stöðu ríkisfjármála hérlendis. Í kjölfarið veiktist gengi krónunnar mikið og trú á íslenskt efnahagslíf dvínaði.

Þó að tiltrú hafi aukist að nýju og krónan styrkst eftir kynningu ráðamanna út í heimi þá telur Ásgeir að áhrifin hafi verið lítil. Áhrif annarra þátta hafi valdið styrkingu á ný, sérstaklega sú staðreynd að mikið lausafé var á alþjóðlegum mörkuðum. Því hafi innstreymi fjármagns aukist. Hann sagði að tímasetningin hafi verið góð og litið svo út að herferðin hafi borið árangur.

Yfirskrift fyrirlestrar Ásgeirs var „vextir og gengi þegar peningastefnan er á verðbólgumarkmiði - Peningastefna Seðlabankans í aðdraganda hrunsins.“ Þar fjallaði hann um peningastefnu Seðlabankans fyrir hrun og þær gagnrýnisraddir sem hafa heyrst um stefnu bankans.

-Nánar verður fjallað um fyrirlestur Ásgeirs í Viðskiptablaðinu á morgun