Ásbjörn Óttarsson, forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar, leiðir lista sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi fyrir kosningarnar í apríl og tekur hann þar með við forystusætinu af Sturlu Böðvarssyni sem ekki gaf kost á sér áfram.

Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi ráðherra, sem sóttist eftir að leiða listann hafnaði í öðru sæti.

Prófkjör sjálfstæðismanna í kjördæminu fór fram í gær og voru úrslit kynnt síðdegis í dag. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir hafnaði í þriðja sæti og Birna Lárusdóttir í því fjórða.

Einar K. Guðfinnsson var einnig í öðru sæti listans fyrir síðustu kosningar. Hann var gerður að ráðherra að kosningum loknum en Sturla var gerður að forseta þingsins.

Sjálfstæðismenn hafa nú þrjá þingmenn í kjördæminu.