Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að svigrúm til launahækkana sé ekki á því bili sem rætt sé um í yfirstandandi kjaradeilum. Svigrúmið sé 1,5 til 2% að viðbættu verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sem sé 2,5%, og því liggi svigrúmið eins og staðan sé núna á bilinu 3,5 til 4%. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

Hún segir jafnframt að til þess að hækka laun enn frekar þurfi framleiðni annað hvort að aukast, þannig að þjóðin skapi meiri verðmæti en áður úr sama hráefni á skemmri tíma, eða viðskiptakjör þjóðarinnar við útlönd að batna.

„Við bætum framleiðni okkar með bættri hagstjórn og við sjáum í gegnum tíðina að við erum með afar sveiflukennt hagkerfi og gegnum tíðina hefur hagstjórn okkar ekki verið nógu góð. Það sem við þurfum að gera er að bæta árangur okkar í fjármálastefnu hins opinbera, peningastefnunnar, sem og hvernig þróunin verður á vinnumarkaði,“ segir Ásdís.