Sakborningar í svokölluðu Aserta-máli svöruðu engum spurningum frétta- og blaðamanna eftir þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness í Hafnarfirði í dag. Eins og vb.is greindi frá fyrr í dag mættu þrír sakborninga við þingfestinguna. Það voru þeir Karl Löve Jóhannesson, Gísli Reynisson og Ólafur Sigmundsson. Markús Máni Michaelsson var hins vegar staddur í Bandaríkjunum. Þeir lýstu allir yfir sakleysi við þingfestingu málsins.

Sérstakur saksóknari ákærði fjórmenninganna í mars fyrir að hafa haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti án leyfis og fyrir að hafa staðið í ólöglegum viðskiptum með gjaldeyri fyrir rúma 14 milljarða króna árið 2009. Gjaldeyrishöft voru innleidd rétt fyrir áramótin 2008. Málið hefur verið í rannsókn hjá embætti sérstaks saksóknara í þrjú ár.

Áætlað er að fjórmenningarnir hafi hagnast um tæpar 700 milljónir króna. Talið er að viðskiptavinir þeirra hafi haft um þrjá milljarða króna upp úr viðskiptunum.