Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, segir að  útrás bankanna hafi gert þá vel í stakk búna mæta niðursveiflu í hagkerfinu. Hann segir að eigið fé þeirra, sem er að miklum hluta í útlöndum og hefur vaxið um hundruð milljarða króna undanfarin misseri, sýni að rekstur þeirra sé afar vel áhættuvarinn. „Staðan sýnir að það er núna mjög erfitt fyrir fjármálastofnanir að vera bara með rekstur á Íslandi.  Það er tvímælalaust styrkur núna að hafa mikið eigið fé og starfsemi erlendis, til áhættudreifingar,“ sagði hann á kynningarfundi fyrir hagspá greiningardeildar Kaupþings í morgun.

Ásgeir segir að ljóst sé að fram hafi farið áhlaup á íslensku bankana í mars, þar sem vogunarsjóðir hafi eðlilega ráðist á  fjármálakerfið  þar sem bankarnir hefðu engan lánveitanda til þrautavara. Ásgeir segir að  mikilvægt  sé að bankarnir fái lausafjárstuðning í erlendri mynt, þar sem vandamálið sé að krónan hafi takmarkað markaðshæfi utan Íslands. Því geti bankarnir  raunverulega ekki fengið sömu lausafjárfyrirgreiðslu hjá sínum seðlabanka og t.d. bankar á evrópska myntsvæðinu enda geti íslenski Seðlabankinn aðeins prentað krónur.