Ásgerður Halldórsdóttir verður nýr bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar en á fundi bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Seltjarnarness og stjórnar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Seltjarnarnesi í morgun var einróma samþykkt að fela Ásgerði, sem er núverandi forseti bæjarstjórnar og 2. fulltrúi á framboðslista Sjálfstæðisflokksins,  starf bæjarstjóra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ en sem kunnugt er hefur Jónmundur Guðmarsson ákveðið að láta af störfum sem bæjarstjóri en hann mun brátt taka við starfi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins.

Ásgerður er viðskiptafræðingur og starfar nú sem forstöðumaður fjárhagsdeildar Íslandsbanka, áður starfaði hún sem forstöðumaður hjá Tryggingamiðstöðinni.

Ákvörðun þessa efnis verður kynnt á fundi Fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, sem boðað verður til síðar í víkunni.