Hlutabréf lækkuðu í Asíu í dag, annan daginn í röð og aftur voru framleiðslufyrirtæki og tækniframleiðendur sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Þá greinir Bloomberg frá því að pólitískur óstöðugleiki í Asíu hafi valdið nokkrum óróa á mörkuðum í dag. Í gær sagði Yasuo Fukuda, forsætisráðherra Japan af sér eftir að hafa setið innan við ár í embætti. Þá eru óeirðir í Bankok sem einnig valda óróa á mörkuðum og þess utan hafa vaxandi áhyggjur af samdrætti í Suður Kóreu þau áhrif að þar lækkuðu hlutabréf einnig í dag.

MSCI Kyrrahafs vísitalan lækkaði í dag um 1,4% en hafði lækkaði um 2,1% í gær.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 1,8%, í Kína lækkaði CSI vísitalan um 0,9% og í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 0,1%.

Í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan hins vegar um 0,3% og var eina vísitalan sem hækkaði í Asíu í dag.

Í Ástralíu stóð S&P 200 vísitalan í stað við lok markaða en hafði fyrr um daginn hækkað um 1,2% en þegar seðlabanki landsins lækkaði stýrivexti sína í fyrsta skipti í 7 ár lækkaði vísitalan aftur.

Þá lækkaði SET vísitalan í Thælandi um 2% og í Suður Kóreu lækkaði Kospi vísitalan um 0,5% en hafði í gær lækkað um 4,1%.