"Fólkið í samfélaginu þarf að geta treyst fyrirtækjunum, að það sé að borga rétt verð fyrir vöruna. Ég spyr: Er engum treystandi?" spurði Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á þingi í dag.

Ásmundur sagði enn dynja fréttir á þjóðinni um markaðsmisnotkun, fólki sé brugðið og það spyrji hvort það sé misnotað. "Ákæra Samkeppniseftirlitsins á hendur Eimskipi og Samskipum eru stóralvarlegt mál, mun stærra en ákæran á hendur Mjólkursamsölunni sem kom fram fyrir hálfum mánuði."

Hann gagnrýndi Samkeppniseftirlitið einnig og sagði það stunda slæleg vinnubrögð. "Mál liggja allt að sjö árum áður en þau eru kláruð í þeirri eftirlitsstofnun. Við þurfum eftirlit sem virkar og er skilvirkt. Eftirlitsiðnaðurinn er sjálfur eins og sofandi álfur eða fíll sem kemst ekki úr sporunum."