Breytingar á fylgi flokkanna í Bandaríkjunum á sér margar skýringar.  Víst má telja að þar hafi efnahagsástandið mikil áhrif, en það er mjög erfitt þessi misserin.  Fjárlagahalli síðasta fjárlagaárs var sá næst mesti frá síðari heimstyrjöld og tímabilið á undan var hallinn sá mesti frá stríðinu.  Atvinnuleysi mælist 9,8% og dollarinn hefur veikst mikið undanfarið.

Ánægja með störf Barack Obama hefur minnkað úr 63% frá upphafi kjörtímabils hans niður í 44,7% nú.  Þrátt fyrir dvínandi vinsældir telja fréttaskýrendur WSJ Obama enn besta mann Demókrataflokksins og hefur hann verið á kosningaferðalagi í þeim ríkjum þar sem sigurlíkur eru fyrir hendi.  Hefur styrkur Obama gert það að verkum að repúblíkanar hafa ekki gert hann að skotspóni í kosningabaráttunni.

Sama gildir ekki um Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar.  Vinsældir hennar hafa hrunið.  Gallup birti könnun um vinsældir hennar um öll Bandaríkin fyrir um viku síðan.  Mældist það aðeins 27%.  Vinsældir Pelosi eru svo litlar að margir frambjóðendur Demókrataflokksins vilja ekki kannast við hana og hefur einn þingmaður í Georgíu, Jim Marshall, sagst ekki myndi styðja Pelosi aftur til þingforseta.  Repúblíkanar hafa nýtt sér litlar vinsældir Pelosi eins og sést á myndinni með fréttinni.