Atlanta stefnir að skráningu í Kauphöll Íslands seinna á árinu en Hafþór Hafsteinsson, forstjóri Atlanta, segir í Viðskiptablaðinu í dag að líkur séu á að skráningunni seinki en áætlanir höfðu gert ráð fyrir að af skráningu yrði seint í haust. "Nú er verið að vinna að því að koma öllum félögunum undir eitt eignarhaldsfélag, Air Atlanta Aviation Group, sem að yrði skráð á markað."

Hafþór segir að mikilvægt sé að standa vel að allri undirbúningsvinnu sem kemur að skráningunni og var vonast til að henni yrði lokið í ágúst en ljóst sé að það mun taka eitthvað lengri tíma vegna samræmingarvinnu á milli félaga sem fara undir eignarhaldsfélagið. Eftir að fyrirtæki eru tilbúin til skráningar tekur við fjögurra til sex vikna skráningarferli í Kauphöllinni.

Líklega vekja ný félög í Kauphöllinni áhuga fjárfesta en gera má ráð fyrir að nokkur félög komi á markað seinna á árinu. Lítið er um áhugaverða fjárfestingarkosti á markaði því að verðið er hátt og einungis tvær nýskráningar voru á síðasta ári.

Atlanta samstæðan samanstendur af Air Atlanta Icelandic, Air Atlanta Europe, Air Atlanta Aero Engineering, 40,5% hlut í Excel Airways, Avia Services. Suðurflug á Keflavíkurflugvelli hefur nú nýlega verið fært undir Íslandsflug. Stefnt er að því að Íslandsflug komi til með að tilheyra Air Atlanta Aviation Group við skráningu.

Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.