P/F Atlantic Petroleum verður fyrsta hlutafélag frá Færeyjum til að skrá sig á færeyskan verðbréfamarkað (VMF), þegar félagið verður skráð á Aðallista Kauphallarinnar á morgun. Félagið varð jafnframt hið fyrsta erlenda sem skráð er í Kauphöllina. Útgefið hlutafé í Atlantic Petroleum er DKK 73.997.800 að nafnverði. Þegar eru 84,9% hlutabréfanna og atkvæðisréttur í eigu almennra fjárfesta. Umsjónaraðili skráningarinnar var Kaupþing banki hf. ? Kaupthing Virðisbrævameklarafelag P/F.

Á blaðamannafundi í Færeyjum í morgun var samningur um skráningu Atlantic Petroleum undirritaður af félaginu, Kauphöllinni og VMF og fylgst var með fyrstu viðskiptum með bréf Atlantic Petroleum þegar markaðurinn opnaði kl. 11:00 að færeyskum tíma. ?Við vonum að skráning Atlantic Petroleum leggi grunninn að öflugum markaði með hlutabréf í færeyskum fyrirtækjum. Þetta er fyrsta skráning félags sem byggð er á samningi Kauphallar Íslands og Virðisbrævamarknaðar Føroya og því tímamótaskráning. Við bjóðum Atlantic Petroleum innilega velkomið í Kauphöll Íslands,? segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands.

Atlantic Petroleum var stofnað árið 1998 og er fyrsta olíu- og gasframleiðslufyrirtæki í Færeyjum. Atlantic Petroleum vinnur nú að könnun færeyska landgrunnsins auk könnunar- og þróunarvinnu á svæðum í Norðursjó sem tilheyra Bretlandi. Fram að þessu hafa þessar áætlanir fyrirtækisins gengið eftir og tekur Atlantic Petroleum nú þátt í átta könnunarverkefnum á miðunum í kringum Færeyjar og í Norðursjó við Bretland. Fyrirtækið hefur skapað sér stöðu sem sjálfstæður framleiðandi olíuafurða og mun á næstu árum sækjast eftir að taka þátt í fleiri verkefnum til að renna frekari stoðum undir reksturinn.

Skráning Atlantic Petroleum markar upphafið að færeyskum hlutabréfamarkaði sem byggður er á grunni samstarfssamnings milli Kauphallarinnar og VMF. Sigurd Poulsen, framkvæmdastjóri VMF: ?Þetta er merkisdagur í sögu færeysks verðbréfamarkaðar þar sem Atlantic Petroleum er fyrsta félagið til að skrá bréf sín á hlutabréfamarkað. Við fögnum öðrum félögum sem vilja nýta sér þennan kost í framtíðinni.?