Að sögn Símon Kjærnested, stjórnarmanns hjá Atlantsskipum og fjármálastjóra Atlantsolíu, er félagið ekki með neinn rekstur sem stendur en unnið er að því að ganga frá þeim vörum sem eru enn hjá félaginu.

Aðspurður sagði Símon að það yrði að koma í ljós hvað yrði um félagið en eins og staða mála væri í dag væri ekki líklegt að það yrði í áframhaldandi flutningarekstri. Flutningar félagsins byggðust á leiguskipum auk þess sem leigt var pláss í skipum Eimskipafélagsins síðustu misserin.

Öllum starfsmönnum félagsins var sagt upp í tvennu lagi og hætti seinni hópurinn frá og með síðustu mánaðamótum. Það voru um það bil 10 manns.

„Innflutningur dróst svo rosalega saman að það var ekki við neitt ráðið. Þetta fór úr því að skipafélögin voru öll í vandræðum með að flytja vörurnar sem komu til þeirra yfir í að hafa ekki nóg,“ sagði Stefán en hann vildi ekki gefa upp skuldastöðu félagsins nú þegar það hefur hætt starfsemi.

Rekstur Atlantsskipa var í tveimur félögum: Atlantsskip Evrópa og Atlantsskip USA. Eftir að bandaríski herinn hvarf af landi brott lögðust flutningarnir til Bandaríkjanna af. Eftir það voru aðeins eftir flutningar til Evrópu sem drógust æ meira saman

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .