Titrings hefur gætt á erlendum fjármálamörkuðum vegna hugsanlegrar íhlutunar Bandaríkjahers í átök stríðandi fylkinga í Sýrlandi. Verð á gulli og olíu hefur hækkað nokkuð upp á síðkastið. Það sem af er degi hefur verð á gulli í framvirkum samningum hækkað um 1,7% á mörkuðum í Bandaríkjunum og stendur verðið í 1.417 dölum á únsu. Bandaríska tímaritið Forbes hefur eftir fjármálasérfræðingum að hugsanlega geti gullverð hækkað frekar. Það fari þó eftir því hvernig málin þróast í Sýrlandi.

Bent er á það í blaðinu að þótt Sýrlendingar séu ekki á meðal olíuþjóða heimsins þá sé hætta á að áhrif ógnaraldarinnar þar, ekki síst ef ráðist verði inn í landið, hafi áhrif í nágrannaríkjunum og spillt fyrir olíuframleiðslu þar.