Ný úrvalsvísitala var gefin út í dag og kemur Fjárfestingafélagið Atorka inn í staðin fyrir SH. Er þetta í annað sinn sem valið er í vísitöluna eftir nýrri aðferðarfræði sem kynnt var í byrjun árs og tekur m.a. mið af seljanleika hlutabréfa. Valið í Úrvalsvísitöluna nú byggir á gögnum um viðskipti frá tímabilinu 1. júní 2003 til 31. maí 2004 en miðað er við verðbil á tímabilinu 1. ágúst 2003 til 31. maí 2004. Úrvalsvísitalan sem nú var valin gildir frá 1. júlí til 1. janúar á næsta ári.

Í Vegvísi Landsbankans er bent á að eðlilegt sé að SH fari út vegna þröngs eignarhalds á félaginu. "Við val á félögum inn í Úrvalsvísitöluna er það skilyrði m.a. sett að verðbil sé ekki meira en 1,5% að meðaltali í lok viðskiptadags á viðmiðunartímabilinu. Að þessu sinni voru 12 félög af þeim 15 stærstu, miðað við flotleiðrétt markaðsvirði, sem uppfylltu þetta skilyrði. Tvö félög í sætum 16-20, Medcare Flaga og Opin kerfi Group, náðu aftur á móti verðbilsskilyrðinu og fóru þar af leiðandi í vísitöluna, í stað Kögunar og Jarðborana. Tvö félög í vísitölunni uppfylla ekki verðbilsskilyrðin, Atorka og Grandi, en komast þó inn á grundvelli flotleiðrétts markaðsvirðis," segir í Vegvísi Landsbankans.