Atorka Group er komin með 7% eignarhlut í Amiad Filtration Systems sem skráð er í Kauphöllinni í London. Hefur félagið aukið við sig undanfarna daga en síðast flaggaði það 5% hlut 21. apríl. Að sögn Magnúsar Jónssonar, forstjóra Atorku, telja þeir að hér sé um mjög áhugavert fyrirtæki að ræða. Hann vildi þó ekkert tjá sig um frekari kaup.

Amiad er leiðandi á alþjóðamarkaði í framleiðslu á vatnshreinsibúnaði og síum til annars vegar iðnaðar og sveitarfélaga og hins vegar til áveitugerðar. Hefur félagið vaxið um ríflega 25% á ári undanfarið.