Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur átta einstaklingum sem grunaðir eru um stórfelld skattalagabrot með því að hafa svikið allt að 300 milljónir króna af hinu opinbera. Málið er eitt það umfangsmesta sinnar tegundar hér á landi og hefur verið til meðferðar hjá lögregluyfirvöldum og saksóknara í á sjötta ár. Visir.is fjallar um málið í dag .

Einstaklingarnir sem um ræðir eru sex karlmenn og tvær konur. Þar af er einn fyrrverandi starfsmaður Ríkisskattstjóra.

Settu á fót sýndarfyrirtæki

Upphaf málsins má rekja aftur til ársins 2010. Hinir ákærðu setti á fót sýndarfyrirtæki í þeim eina tilgangi að svíkja fé út úr skattkerfinu. Fyrirtækið varð sér síðar úti um stórfé vegna byggingar þriggja húsa sem aldrei voru reist.

Á því tímabili sem um ræðir gáru fyrirtæki fengið sérstaka heimild til endurgreiðslu á innskatti á meðan uppbyggingu stóð. Fólkinu tókst þannig að svíkja rúmlega 270 milljónir króna út úr virðisaukaskattskerfinu.

Flúði til Venesúela

Grunaður höfuðpaur er Steingrímur Þór Ólafsson en hann hélt af landi brott til Suður-Ameríku nokkrum dögum áður en upp komst um svikin og handtökurnar fóru fram. Alþjóðadeild hjá embætti ríkislögreglustjóra lýsti eftir Steingrími að fenginni ákvörðun dómsmálaráðuneytisins og að beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Steingrímur var eftirlýstur af Interpol vegna gruns um eiturlyfjasmygl, skjalafals, peningaþvætti og skattsvik. Hann var svo handtekinn á Santiagó Marínó flugvelli á eyjunni Margarita, þegar hann ætlaði að fara þaðan til Frankfurt í Þýskalandi, að eigin sögn á leið sinni til Íslands. Hann hafði þá dvalið í Venesúela í fimm daga.