Átta fyrirtæki kynna starfsemi sína og afurðir á fjárfestaþingi Seed Forum Iceland á föstudag. Þar af eru fimm fyrirtækjanna íslensk, tvö norsk og sænskt/breskt.

Íslensku sprotafyrirtækin eru Unimaze Software (www.unimaze.com), leikjafyrirtækið FPG (www.fancypantsglobal.com), Locatify (www.locatify.com), Grapewire (www.grapewire.com) og Nordic Photos (www.nordicphotos.com). Þau erlendu eru Fair Trading Technology (www.fairtradingtech.com), Trianglo (www.trianglo.com) og Dento Tech.

Þetta er fimmtánda fjárfestaþingið sem haldið er á vegum Sprotaþings á sjö árum. Rúmlega 100 fyrirtæki hafa þar kynnt starfsemi sína. Þar á meðal eru CCP, Gogogic, Carbon Recycling og ORF Líftækni ásamt mörgum fleirum.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, setur fjárfestaþingið klukkan níu í höfuðstöðvum Arion banka.

Aðalræðumaður verður Joachim Krohn-Høegh, framkvæmdastjóri Argentum, eins stærsta áhættufjárfestingarsjóðs Noregs en eignasafn hans nemur rúmum 150 milljörðum króna. Argentum er í eigu norska ríkisins en forsvarsmenn sjóðsins hafa lýst yfir áhuga á að fjárfesta í íslenskum  áhættufjárfestingarsjóðum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Seed Forum.

Þá mun Torkel Ystgaard, aðstoðarframkvæmdastjóri SIVA – sem er norska nýsköpunarmiðstöðin - flytja erindi. Nýsköpunarmiðstöðin rekur m.a. 44 iðnaðargarða og er hluthafi í 145 sprotafyrirtækjum.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins og stofnandi Stika fjallar um framtíð nýsköpunar og sprotafyrirtækja á Íslandi.

Seed Forum Iceland - Arion Banki 25.03.11
Seed Forum Iceland - Arion Banki 25.03.11
© BIG (VB MYND/BIG)
Eyþór Ívar Jónsson, framkvæmdastjóri Klaks, sem heldur utan um fjárfestaþingið.