Á öðrum ársfjórðungi 2005 voru að meðaltali 5.000 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 3,0% vinnuaflsins samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Í frétt frá Hagstofunni segir að atvinnuleysi hafi mælst 2,8% hjá körlum en 3,2% hjá konum. Atvinnuleysið var mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða 8,5%. Rúmlega helmingur atvinnulausra var í þessum aldurshópi, eða 2.600 manns og af þeim voru rúmlega 80% einnig í námi.

Á öðrum ársfjórðungi 2004 mældist atvinnuleysi 4,0%. Atvinnuleysi karla var þá 5,2% en 2,7% hjá konum. Atvinnuleysi meðal fólks á aldrinum 16-24 ára mældist 11,9%.

Starfandi fólk 163.800 og atvinnuþátttaka 83,5%

Fjöldi starfandi á öðrum ársfjórðungi 2005 var 163.800 manns sem er fjölgun um 5.900 frá sama tíma ári áður. Á vinnumarkaði voru alls 168.900 manns sem jafngildir 83,5% atvinnuþátttöku. Atvinnuþátttaka karla var 88,0% en kvenna 78,9%. Til þeirra sem eru á vinnumarkaði teljast bæði þeir sem eru starfandi og atvinnulausir.

Á öðrum ársfjórðungi 2004 mældist atvinnuþátttaka 82,6%, 87,6% hjá körlum og 77,5% hjá konum. Fólki á vinnumarkaði fjölgaði um 4.200 manns frá öðrum fjórðungi fyrra árs til jafnlengdar á þessu ári, mest í aldurshópnum 16-24 ára og 55-74 ára.

Vinnutími 43,1 klst. á viku

Á öðrum ársfjórðungi 2005 var meðalfjöldi vinnustunda 43,1 klst. hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 48,6 klst. hjá körlum en 36,4 klst. hjá konum.

Á öðrum ársfjórðungi 2004 var fjöldi vinnustunda 42,2 klst., 47,4 klst. hjá körlum en 36,0 klst. hjá konum.