Atvinnuleysi er nú 2,3% og hefur aukist mjög hratt á síðustu vikum.

Þetta kom fram í máli félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, á ársfundi Vinnumálastofnunar í dag.

Í byrjun þessa árs voru um 1.500 manns skráðir atvinnulausir en um 2.500 í lok september. Við lokun hjá Vinnumálastofnun í gær voru 4.140 skráðir án atvinnu, um það bil 2.240 karlar og 1.890 konur sem er 2,3% atvinnuleysi.

Á síðustu vikum hafa 50-70 einstaklingar skráð sig atvinnulausa á degi hverjum hjá skrifstofu Vinnumálastofnunar á höfuðborgarsvæðinu. Á öðrum skrifstofum stofnunarinnar er samanlagður fjöldi nýskráninga á bilinu 30-40 á dag.

Hrina hópuppsagna er hafin og hafa Vinnumálastofnun á síðustu dögum borist upplýsingar um hópuppsagnir sem ná til rúmlega 2000 einstaklinga sem hætta munu störfum eftir einn til þrjá mánuði.