Óvænt aukning varð á atvinnuleysi í Bandaríkjunum í ágústmánuði, en störfum fækkaði þá um 84.000. Atvinnuleysi mælist nú 6,1% og hefur ekki verið meira síðan í desember 2003.

Störfum hefur alls fækkað um 605.000 vestan hafs það sem af er þessu ári, sem þykir benda til þess að bandaríska hagkerfið sé á barmi þess að sigla inn í samdráttarskeið.

Forsetaframbjóðendurnir John McCain og Barack Obama hafa tjáð sig um atvinnuástandið, en McCain hefur kallað eftir meiri starfsþjálfun fólks á meðan Obama hefur talað fyrir skattalækkunum fyrir miðstéttarfjölskyldur og segir nauðsynlegt að styðja við bakið á einstökum fylkjum.

Störfum hefur nú fækkað í átta mánuði í röð í Bandaríkjunum. Greiningaraðilar telja frekari fækkun þeirra fram undan, en Reuters hefur eftir einum viðmælanda sínum að atvinnuleysi hafi náð hámarki í 7,8% árið 1992 og að nú gæti það stefnt í svipaða tölu.