Atvinnulausum í Bretlandi hefur fækkað hratt yfir sumarmánuðina og mun hraðar en búist hafði verið við. Fækkaði atvinnulausum þannig um 154 þúsund á tímabilinu. BBC News greinir frá málinu.

Fjöldi atvinnulausra er nú um 1,97 milljónir og hafa þeir ekki verið færri síðan árið 2008. Frá byrjun ársins til loka maímánaðar fækkaði atvinnulausum um 538 þúsund, sem er mesta fækkun á slíku tímabili síðan mælingar hófust. Samt sem áður jókst fjöldi þeirra sem kjósa að leita sér ekki að atvinnu.