Atvinnuleysi var í desember sl. 2,8% en það hefur lækkað hratt undanfarið. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða var 2,9% samkvæmt tölum vinnumálastofnunar. Þróun atvinnuleysis hefur verið í takt við eftirspurn í hagkerfinu og nú eru líkur á því að innflutningur á vinnuafli muni stóraukast á næstu árum samkvæmt hagsjá Landsbankans.

Atvinnuleysi fór hæst í 13%

Í kjölfar hrunsins fór atvinnuleysi hæst á landinu á Suðurnesjum. Þar fór atvinnuleysið hæst í 13%, en er nú um 4%. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu fór hæst í 9% og á landsbyggðinni fór það hæst í tæp 7%.

Atvinnuleysi meðal karla var mun meira en kvenna eftir hrunið, en það má að miklu leyti rekja til hruns í byggingar- og verktakaiðnaði. Frá árinu 2011 hefur atvinnuleysi meðal kvenna þó verið meira en karla. Á árinu 2015 var meðalatvinnuleysi kvenna 3,5% en karla var 2,5%.

Hlutfall háskólamenntaðra meðal atvinnulausra hefur aukist mikið frá því eftir hrun. Á árinu 2000 var hlutfall háskólamenntaðra meðal atvinnulausra var 10% en á árinu 2015 var það 25%.