*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 13. júlí 2021 10:20

Atvinnuleysi lækkar hratt

Atvinnuleysi minnkaði um 1,7% í júní þrátt fyrir að hlutabótaleið hafi lokið í maí. Staðan enn verst á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi er 13,7%.

Ritstjórn
Gert er ráð fyrir því að atvinnuleysi muni halda áfram að lækka eftir því sem líður á árið.
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt hagsjá Landsbankans var almennt atvinnuleysi um 7,4% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði í júní og voru um 14.300 manns á atvinnuleysisskrá í mánuðinum. Atvinnuleysi minnkar um nærri tvö prósentustig á milli mánaða en atvinnuleysi í maí nam 9,1%.

Þar sem að hlutabótaleið stjórnvalda lauk í maí var heildaratvinnuleysi einnig 7,4% en það var 10,0% í maí. Atvinnuleysi dróst saman í öllum landshlutum á tímabilinu. Atvinnuleysi lækkaði mest á suðurnesjum, um 5,0% og um 2,6% á Suðurland. Atvinnuleysi er þó enn mest á Suðurnesjum um 13,7%, næst mest á höfuðborgarsvæðinu um 7,9% og um 5,4% á Suðurlandi.

Gert er ráð fyrir því að atvinnuleysi muni aftur lækka í mánuðinum og verða 6,5% í júlí. Útlit er fyrir að hámarksatvinnuleysi hafi verið náð en það hefur nú lækkað sex mánuði í röð. Enn er nokkuð langt í land í að atvinnuleysi nái svipuðu róli og fyrir faraldur en það var 5% í upphafi árs 2020. 

Þá segir að atvinnuleysi hafi ekki bitnað sérstaklega illa á einstökum hópum innan samfélagsins. Atvinnuleysi meðal karla og kvenna hefur verið svipað í faraldrinum og þróun atvinnuleysis hjá ungu fólk hefur verið með svipuðum hætti og atvinnuleysi almennt. Vert er þó að benda á að aukin skólaganga hefur dregið úr atvinnuleysi yngra hópa. 

Stikkorð: Atvinnuleysi