Rússneski auðkýfingurinn Roman Abramovich, eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea, er sagður vera nálægt því að festa kaup á einhverri stærstu skrifstofubyggingu í Moskvu. Þetta er reyndar líka næst stærsta bygging í gjörvöllu Rússlandi. Byggingin nefnist upp á íslensku Hvítu Garðarnir og er hún í námunda við Belorusskaya-lestarstöðina í fjármálahverfi borgarinnar. Þetta eru hin mestu glæsihýsi sem samanstanda af háhýsum upp á 16 og 12 hæðir og fimm hæða bílakjallara. Verðið sem Abramovich er sagður reiða fram nemur jafnvirði allt að 800 milljóna dala, um 96 milljarða íslenskra króna, að sögn Reuters-fréttastofunnar .

Það er fjárfestingarfélag Abramovich, Millhouse, sem kaupir bygginguna. Framkvæmdir standa enn yfir og er gert ráð fyrir að þeim ljúki á næsta ári. Þrátt fyrir það er þegar búið að leigja út um þriðjung af skrifstofurýminu.

Reuters bendir á að meðalleiguverð á fermetra fyrir skrifstofu í byggingu af svipuðum klassa í Moskvu standi nú í sem svarar til 1.150 dölum á fermetra, jafnvirði tæpra 140 þúsund íslenskra króna. Það er rúmlega 60% hækkun á þremur árum. Leiguverð er hins vegar enn nokkuð frá því sem sást áður en fjármálakreppan skall á.

Teikning af húsinu sem Roman Abramovich er sagður vera að kaupa.