Pósturinn hefur sett í loftið reiknivél á nýrri heimasíðu fyrirtækisins, www.posturinn.is, sem gerir viðskiptavinum mögulegt að reikna út gjöld á sendingum sem koma frá útlöndum. Pósturinn greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

„Hugmyndin að reiknivélinni kemur frá viðskiptavinum Póstsins en fyrirtækið leitaði eftir ábendingum til að bæta þjónustu fyrirtækisins síðastliðið haust í Facebookhópnum „Verslun á netinu". Í kjölfarið vaknaði þessi hugmynd og var ákveðið að smíða reiknivélina og kynna til leiks á nýrri og endurbættri heimasíðu. Með því að nota reiknivélina geta viðskiptavinir nú reiknað öll gjöld sem falla á sendingar frá útlöndum við komu til landsins og séð þannig heildarkostnað vöru með einföldum hætti. Reiknivélin reiknar út hver gjöldin eru af viðkomandi sendingu að gefnum þeim forsendum sem viðskiptavinir velja,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

„Við erum sífellt að leitast við að koma með nýjungar sem hjálpa viðskiptavinum okkar á einhvern hátt og þetta er eitthvað sem þeir voru að kalla eftir, það var því mjög auðveld ákvörðun að ráðast í þetta verkefni. Hugmyndin bakvið reiknivélina er að auðvelda viðskiptavinum að nálgast allar upplýsingar um gjöld af erlendum sendingum til að þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir þegar þeir eru að versla á netinu. Við viljum að netverslun sé gagnsætt ferli og að viðskiptavinir okkar viti sem mest þegar kemur að kaupákvörðun, við hvetjum því alla sem eru að versla sér af netinu erlendis frá að nýta sér þessa lausn. Okkar helsta markmið er að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu. Ásamt þessari nýjustu breytingu erum við að fara af stað með pakkaafhendingu í samstarfi við Skeljung, þá munum við bæta við nýjum Póstboxum í sumar og á sama tíma ætlum við að kynna nýtt app sem mun bæta þjónustu við viðskiptavini okkar enn frekar. Það er því margt framundan hjá okkur og hlökkum við til að kynna þær nýjungar fyrir viðskiptavinum,“ segir Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Póstsins, í tilkynningunni.