Stefnt skal að 10 prósenta hagræðingu í opinberum innkaupum,“ segir einni tillögu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar en rétt rúm vika er síðan tillögurnar, sem voru 111 talsins, voru gerðar opinberar.

Opinber innkaup nema um 18 prósent af þjóðarframleiðslu eða um 300 milljörðum króna á ári. Skiptingin er nokkurn veginn jöfn á milli ríkis og sveitarfélaga þannig að í raun er ríkið að stefna að 10 prósenta sparnaði af 150 milljörðum eða 15 milljörðum á ári. Þessi tillaga vegur því mjög þungt í þeirri heildarhagræðingu sem stefnt er að samkvæmt tillögum hagræðingarhópsins. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem átti sæti í hópnum, segist telja þetta raunhæft markmið.

„Jafnvel þótt við náum ekki 10 prósenta hagræðingu heldur bara fimm prósenta hagræðingu þá telur það mjög mikið,“ segir Guðlaugur. „Við verðum að átta okkur á því að hvert eitt prósent felur í sér 1,5 milljarða króna hagræðingu í þessu tilliti.“ Að sögn Guðlaugs Þórs eru veruleg tækifæri til hagræðingar á þessu sviði ríkisútgjaldanna. „Allir sem við í hópnum töluðum við voru sammála um þetta. Aðalatriðið er að það þarf að fara mjög vel yfir opinber innkaup og það er ýmislegt sem þarf að skoða. Í fyrsta lagi er of algengt að stofnanir og fyrirtæki ríkisins nýti sér ekki þann afslátt sem er í boði. Í öðru lagi er algengt að Ríkiskaup innheimti 0,5 til 2 prósenta þóknun fyrir aðkomu sína að samningum og við þurfum að skoða hvort þetta sé ekki of hátt í sumum tilfellum. Í þriðja lagi þarf að skoða hvort reglur um opinber innkaup séu nægilega sveigjanlegar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .