Nýtt sameinað félag Flugstofa og Keflavíkurflugvallar auglýsir í helgarblöðum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í dag eftir umsóknum í starf forstjóra. Í auglýsingunni segir að forstjóri muni hafa með höndum yfirstjórn sameinaðs félags og fara með daglega stjórn fyrirtækisins í umboði stjórnar og í samræmi við samþykkta stefnu. Forstjóri fari með yfirstjórn flugleiðasöguþjónustu, flugvallarekstur, tæknimála og stoðstarfsemi og beri ábyrgð á frekari viðskiptaþróun félagsins í samvinnu við framkvæmdastjóra sviða.

Í auglýsingunni kemur fram að tilgangur sameiningar Flugstoða og Keflavíkurflugvallar sé að efla og bæta þjónustu við flugfarþega, flugrekendur og aðra samstarfsaðila, innlenda og erlenda. Hjá sameinuðu félagi munu starfa tæplega 700 manns.

Hlutverk Flugstoða hefur verið að annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla annarra en Keflavíkurflugvallar. Auk þess annast félagið alla flugleiðsöguþjónustu sem Ísland veitir fyrir alþjóðlegt flug og innanlandsflug. Keflavíkurflugvöllur ohf. tók við rekstri Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar 1. janúar 2009.

Vilja hækka farþegagjöld

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins kemur fram að Keflavíkurflugvöllur ohf., sem er að fullu í eigu ríkisins, hefur sent samgöngumálaráðherra nýja gjaldskrá þar sem lagt er til allveruleg hækkun á farþegagjöldum. Gjaldskráin bíður nú staðfestingar ráðherra. Í nýrri gjaldskrá, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, er ekki gert ráð fyrir hækkun á lendingargjöldum. Hins vegar er gert ráð fyrir að farþegagjöldin hækki úr 1.320 krónur á hvern farþega í 2.360 krónur sem er tæp 79% hækkun.