Neytendastofa hefur bannað Skeljungi að birta útvarpsauglýsingu frá félaginu á þeim grundvelli að hún sé villandi, en þetta kemur fram í nýrri ákvörðun sem birtist í morgun.

Í auglýsingunni sem um ræðir kom fram fullyrðingin: „[Orkulykillinn] veitir afslátt af ódýrasta eldsneytinu á Orkunni og á þjónustustöðvum Shell.“ Í málinu var óumdeilt að þjónstustöðvar Shell buðu ekki ódýrasta eldsneytið á markaði en Neytendastofa gerir ríkar kröfur til fyrirtækja sem vilja höfða til neytenda á grundvelli verðsamanburðar í auglýsingum.

Vegna þess að fullyrðingu Skeljungs væri hægt að skilja á fleiri en einn veg og þess að notað var efsta stig lýsingarorðs sem og tegundar vörukaupanna og auglýsingamiðilsins sem um ræddi taldi Neytendastofa að auglýsing Skeljungs væri villandi og bryti gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.