Mörg fyrirtæki auglýsa vörur sínar í gegnum samskiptavefinn Facebook. Í síðasta uppgjöri Facebook sem birt var í síðasta mánuði kemur fram að auglýsaverð hafi hækkað um 123% á einu ári. Wall Street Journal fjallar um þetta á vef sínum.

Í uppgjörinu kemur fram að þrátt fyrir að birtum auglýsingum hafi fækkað um 25% hafi tekjurnar hins vegar aukist um 67%. Facebook segir þetta skila betri árangri.

Nathan Latka forstjóri Heyo.com sem gerir auglýsingar fyrir smærri auglýsendur segir þetta gagnast stærri fyrirtækjum en ekki smærri sem eru með minna fjármagn í auglýsingar og hafa ekki mannskap í að úthugsa markaðsherferðir sína á samskiptavefnum.

Mikil breyting á fáum árum

Þegar Facebook var ekki orðið eins vinsælt og í dag, var auðvelt fyrir fyrirtæki að eignast vini (e. like). Síðan varð það erfiðara og þá þurftu fyrirtækin að kaupa auglýsingar til að eignast vini. Nú nægir ekki að eiga vini, heldur verða fyrirtækin að kaupa auglýsingar svo skilaboðin til vinanna komi fyrir augu þeirra.