Í dag var undirritaður þriggja ára vátryggingarsamningur á milli Auðhumlu svf. og VÍS.  Samningar tókust með fyrirtækjunum í kjölfar útboðs á vátryggingarvernd Auðhumlu svf. og dótturfélaga, í febrúar síðastliðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá VÍS.

Samningurinn gerir ráð fyrir að VÍS vátryggi m.a. rekstur og allar eignir Auðhumlu svf. og dótturfélaga. Í samningnum felst einnig að VÍS veiti ráðgjöf um forvarnir auk þess sem fyrirtækin munu hafa samvinnu á sviði vöruþróunar með það að markmiði að auka vátryggingarvernd og þjónustu til fyrirtækja og einstaklinga í mjólkurframleiðslu.

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 700 mjólkurframleiðenda um land allt og hefur það hlutverk að taka við mjólk frá félagsmönnum sínum og vinna mjólkurafurðir sem eru seldar á innlendum og erlendum mörkuðum.  Rekstarfélagið Mjólkursamsalan ehf annast framleiðslu, vöruþróun, markaðssetningu og dreifingu á mjólkurafurðunum.  Félagið er dótturfélag Auðhumlu og er með sjö starfsstöðvar víðsvegar um landið .