Tap deCODE jókst á fyrsta fjórðungi m.v. sama tímabil síðasta árs. Tapið á fjórðungnum nam 16,9 m.USD, jafnvirði um 1.070 m.kr. Til samanburðar nam tap félagsins ríflega 12 m.USD á fyrsta fjórðungi í fyrra. Fram kemur í tilkynningu að uppgjörið sé litað af aukinni áherslu á uppgötvun og þróun nýrra lyfja.

Tekjur félagsins voru 9,5 m.USD og lækkuðu um 7,4% frá fyrra ári. Í lok fjórðungsins átti félagið þó 17,5 m.USD í frestuðum tekjum. "Rekstrargjöld hækkuðu hins vegar um 9,5%, m.a. vegna aukinna fjárframlaga til rannsóknar- og þróunarvinnu vegna lyfjaþróunar. Þá kemur fram í tilkynningu frá félaginu að vaxtakostnaður hafi aukist vegna útgáfu á breytanlegum skuldabréfum. Auk þess var kostnaður bókfærður á fjórðungnum í tengslum við sölu á höfuðstöðvum félagsins. Handbært fé deCODE nam 197,6 m.USD í lok fjórðungsins," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.