Tæplega 1,55 milljónir farþegabíla voru nýskráðar í löndum Evrópusambandsins auk Noregs, Sviss og Íslands í júnímánuði, eftir því sem kemur fram í skýrslu ACEA, samtaka bílaframleiðenda í Evrópu. Um er að ræða 4,5% aukningu frá því í júní 2004. Í maí hafði nýskráningum fækkað um 1,7% miðað við sama tíma í fyrra.
Vöxtur er á fjórum af fimm helstu bílamörkuðum Evrópu sé miðað við sama mánuð í fyrra. 8,2% vöxtur varð í Þýskalandi, sem að jafnaði er stærsti markaður Evrópu. Þar voru 336,629 bílar nýskráðir í liðnum mánuði. 2,7% vöxtur var í Frakklandi, 1,8% vöxtur á Spáni og á Ítalíu var vöxtuinn 18% eða 233,901 nýskráning úr 198,261 í júní á fyrra ári. Sú mikla aukning skýrist af mánaðarlöngu verkfalli í maí sem hamlaði flutningi nýrra bíla. Því varð mikill sölukippur í júní eftir að verkfallið leystist. Aðeins í Bretlandi var fækkun á nýskráningum, eða sem nam 4,8%

Á Íslandi voru 2,543 nýir bílar skráðir í liðnum mánuði miðað við 1,799 í júní í fyrra. 41.4% aukning varð því á milli ára. Alls hafa 9,687 nýir bílar verið skráðir hérlendis frá ármótum fram til júníloka miðað við 6,409 bíla í fyrra.

Samkvæmt skýrslu ACEA seldist Renault best í Evrópusambandslöndunum 23 auk Íslands, Noregs og Sviss, í júní eða 166,795 bílar. Þar á eftir kom Volkswagen með 154,618 selda bíla og Opel með 146,552 bíla selda í mánuðinum. Hérlendis seldist Toyota langsamlega best í júní, alls 729 bílar, samkvæmt samantekt Umferðarstofu. Volksvagen er þar á eftir með 249 bíla og Hyundai með 185 selda bíla. Heildarfjöldi seldra nýrra fólksbíla hérlendis í júní var 2,543.